Fyrirtækið



Fyrirtækið Ólafur Gíslason & Co. hf. 500269-3759 var stofnað 15. september 1923 sem innflutnings- og útflutningsverslun af Ólafi Ág. Gíslasyni. Þremur árum síðar gerðust Einar Pétursson og Tómas Pétursson meðeigendur að fyrirtækinu og var því þá breytt í hlutafélag. Fyrst var fyrirtækið til húsa í Hafnarstræti en flutti síðan í Ingólfsstræti. Til margra ára var fyrirtækið til húsa að Sundaborg 3 en í dag er fyrirtækið til húsa í Sundaborg 7 104 Reykjavík.

Í byrjun beindist verslun einkum að innflutningi á kolum, kaffi, salti og sementi. Kol voru flutt inn í heilum förmum og var mikill handagangur í öskjunni þegar 3 fulllestuð skip voru hér samtímis að losa kol fyrir fyrirtækið. Til gamans má geta að Ó.G.& Co.h.f. voru þeir fyrstu hér á landi til að flytja inn kaffi beint frá Brasilíu. Einnig voru flutt inn veiðafæri, nætur, netagarn og fleira mætti upp telja.

Útflutningur var aðallega í fullverkuðum og blautverkuðum fiski og má nefna að talvert af rjómabúsmjöri (Danish butter frá Baugsstaðabúinu) var einnig útflutningsvara fyrirtækisins.

En tímarnir breytast og mennirnir með og þar af leiðandi þróaðist innflutningur Ó.G. & Co.h.f. á aðrar brautir og útflutningur tók stefnu á að selja fiskimjöl og lýsi en þeirri starfsemi var hætt síðla 1986 og er ekki lengur fengist við útflutning.

Árið 1963 gerði fyrirtækið samning við Norsk Sprengstoff AS (í dag Orica Mining) og gerðust umboðsmenn þeirra á Íslandi í sölu sprengiefna og skyldra hluta. Um árabil gekkst fyrirtækið einnig fyrir námskeiðahaldi fyrir verðandi sprengimenn og voru þau námskeið vel sótt. Enn er fengist við sölu á sprengiefnum og hafa starfmenn fyrirtækisins aflað sér mikillar þekkingar á málum sem viðkoma sprengingum hvort sem er á landi eða neðansjávar og reglum þeim sem lúta að meðhöndlun og innflutningi sprengiefnis.

Um alllangt skeið fluttum við inn spónaplötur sem nefndust Orkla og voru frá fyrirtækinu Norsk Skogindustri AS í Noregi. Um skeið voru þetta einu og helstu spónaplöturnar sem allir  framleiðendur og byggingavöruverslanir og markaðir voru með. Frá Moelven AS í Noregi voru flutt inn timburhús og sumarhús m.a. vegna Vestmannaeyjagossins. Frá sama fyrirtæki voru einnig flutt inn vinnuhús fyrir m.a. Landsvirkjun.

Umboðsaðilar fyrir skipa og bátavélar af gerðinni MAN vorum við um allangt skeið en varðskipin okkar Ægir og Týr eru búnir þessum vélum. Eins voru það hafrannsóknarskipin Bjarni Sæmundsson og Árni Friðriksson að ógleymdum tugum skuttogara sem byggðir voru á Spáni og öðrum þýskbyggðum fiskiskipum. Frá Kanada voru fluttir inn snjóbílar af gerðinni Flextrack en flestir þeirra fóru til Landsvirkjunar.

Fyrirtækið flutti um skeið inn fiskeldisfóður og búnað frá A.B. Ewos í Svíþjóð eða þar til að framleiðsla hófst hérlendis á Ewos fóðri. Af öðrum vörum sem fluttar hafa verið inn og seldar má nefna Avery, Salter, AIC og Soehnle vogir, jaft iðnaðarvogir, bílavogir sem og nákvæmnisvogir. Nefna má að Avery vogir voru hér um land allt í öllum frystihúsum sem borðvogir sem margir kannast við. Eins voru Avery bílavogir á nærri hverri einustu höfn þar sem á annað borð var bílavog. Gömlu Avery rennilóðavogirnar sem notaðar voru við vigtun t.d. á kartöflum ofl. muna margir eftir. Russel Hobbs raftæki sem allir þekkja og þá sérstaklega hraðsuðukatlana þessa með rauða hnappinum. Fleiri gerðir raftækja voru fluttar in eins og Domeyer hrærivélar, Severin og Morphy Richards raftæki. Shannon skrifstofuskápar, Chubb og Angus slökkvibúnaður ásamt ýmsum öðrum eldvarnabúnaði.

Spalding golfsett, Harrington riflar og Hardy veiðistangir voru frístundavörur sem fluttar voru inn um alllangt skeið.

Við vorum brautryðjendur í sölu á sólarrafhlöðum fyrir sumarhús og kom sá búnaður frá fyrirtæki sem nefndist Progas í Noregi. Í upphafi höfðu menn litla tiltrú á þessum búnaði en það breyttist fljótt.

Í dag er fyrirtækið enn með viðskiptasambönd við Orica Mining (Dyno Nobel) og flytur inn sprengiefni og búnað til notkunar við sprengingar. Einnig er hafin framleiðsla á sprengiefnum úr sérstökum blöndunar og hleðslubifreiðum til dælingar beint í sprengiholur við pallsprengingar og eins við jarðgangagerð. Það fyrirkomulag dregur úr flutningi sprengiefna á þjóðvegum. Fyrirtækið hefur komið að nánast öllum framkvæmdum þar sem sprengiefna er þörf hérlendis.

Skúffu-og skjalskápa ásamt fylgihlutum erum við með frá TBS (Triumph) í Bretlandi og Silverline einnig í Bretlandi. Pokasaumavélar og saumagarn frá Frakklandi og Indlandi höfum við verið með. Þessar saumavélar hafa aðallega verið notaðar við að sauma sláturkeppi.

Árið 1974 keypti Ó.G.& Co.h.f. fyrirtækið Eldvarnamiðstöðina en það fyrirtæki þjónustar slökkviliðin í landinu og flytur einnig inn almennan eldvarnabúnað. Starfsemin hefur farið vaxandi með hverju árinu sem líður. Meðal vörutegunda eru slökkvitæki, reykskynjarar, eldvarnateppi, brunaslönguhjól, undankomuljós, viðvörunarkerfi, vatnsúðakerfi, fellistigar ofl. Þekkt vörumerki má nefna eins og Jockel, Total, Lifeco, Ningbo, Saval, NoHa, Ajax, Gras, Starkin, Mobiak, Ogniochron, Modum, Eurostigen, Ardenoak, Ajax, EI, Firex, Garvan, Heiman, Anka, Forlife, Numens, Smoke Gard, Smartware, Siterwell, Parat, Ascoa, Grinnel ofl. Sérstaklega fyrir slökkviliðin erum við með hlífðarfatnað, eiturefnafatnað, brunaslöngur, úðastúta, hraðtengi, brunadælur, björgunartæki, spilliefnabúnað og margt margt fleira sem of langt mál væri upp að telja.

Kappkostað hefur verið að þjóna slökkviliðunum með nánast allan þann búnað sem slökkvilið þarfnast. Mörg þekkt vörumerki má nefna eins og Albatros, Condor, Seagull, Firesuit, Weenas, Holmatro, Peli, Mactronic, Mandals,  Rosenbauer, Egenes, ISS-Wawrzaszek, Trellchem, Ansel, Unifire, Protek, Akron Brass, Elkhart Brass, TFT, Multifire, Mandals, Walraf, Feuer Vogel, AWG, Luitpold Schott, Interspiro, Scott, Darley, Waterous, Tohatsu, BlowHard, Ramfan ofl.

Árið 1991 byrjaði fyrirtækið síðan að selja slökkvibifreiðar sem eru innréttaðar og yfirbyggðar hjá Rosenbauer AS í Noregi. Fyrirtækið varð m. a. hlutskarpast þegar útboð voru opnuð af Eignarhaldsfélagi Brunabótafélagsins og Sambandi sveitarfélaga um kaup á slökkvibílum fyrir hin ýmsu sveitarfélög. Eins í útboði Ríkiskaupa á flugvallaslökkvibifreiðum fyrir Flugmálastjórn. Árið 2003 var komið á viðskiptasambandi við ISS-Wawrzaszek í Póllandi og hafa verið innréttaðar og yfirbyggðar slökkvibifreiðar á okkar vegum þar. Fyrstu bifreiðarnar fóru til Brunavarna Árnessýslu. Í dag eru slökkvibifreiðar frá fyrirtækinu í öllum landsfjórðungum  og einnig öllum flugvöllum.

Frá fyrirtækinu Profile Vehicles í Finnlandi hafa verið fluttar inn sjúkrabifreiðar fyrir Rauða kross Íslands ásamt ýmsum öðrum búnaði fyrir sjúkralið. Búnaðurinn er frá PSP í Kanada, Rapid Deployment í Bandaríkjunum og Medsource.

 

Árið 1997 var sameignarfélagið Rafborg keypt og breytt í einkahlutafélag. Það fyrirtæki er einnig að Sundaborg 7 og flytur inn og dreifir rafhlöðum af öllum gerðum. Ásamt rafhlöðum er einnig boðin hleðslutæki, mælar, straumbreytar, ljós og annað sem tengist rafhlöðunotkun. Rafborg var stofnað 1967 og var alla tíð að Rauðarárstíg 1 áður en flutt var í Sundaborgina. Helstu vörumerkin eru Panasonic, Pairdeer, everActive, PKCell, Golden Dragon, Fiamm og BigBat



Árið 2003 voru keypt hlutabréf í Albatros International AS í Danmörku en það fyrirtæki hefur um langt árabil framleitt fyrir m.a. okkur hlífðarfatnað á slökkviliðsmenn.

Okkar væntingar og óskir eru þær að fyrirtækið megi vaxa og dafna á nýrri öld, eins og það hefur gert á þeirri sem liðinn er og að það fái að njóta starfskrafta góðra og samviskusamra starfsmanna en fyrirtækið hefur átt því láni að fagna að hafa góða starfsmenn sem hafa öðlast háan starfsaldur og skilað góðu starfi í þágu fyrirtækisins. Án þeirra hefði fyrirtækið ekki náð þessum háa aldri.

Stjórnarformaður er Benedikt Einar Gunnarsson og framkvæmdarstjóri er Dagný Guðmundsdóttir sem tók við framkvæmdastjórn árið 2020.