Sprengilykt berst í gegnum Norðfjarðargöng

Frétt tekin af vef Ruv.is 16. september 2015

Gangamenn sem starfa Fannardalsmegin í Norðfjarðargöngum töldu sig í morgun finna lykt af sprengiefni sem notað er við sprengingar Eskifjarðarmegin. Nokkrir dagar eru síðan sprengingar fóru að finnast og heyrast í gegn.

Þegar lokið verður við að moka út úr göngunum eftir sprengingu morgunsins verð aðeins tólf metrar eftir ófarnir gegnum fjallið en sprengdir eru um 5 metrar í einu. Guðmundur Þór Björnsson sinnir eftirliti með framkvæmdinni og segir að göngin opnist eftir tvær eða þrjár sprengingar annaðhvort á fimmtudagskvöld eða föstudagsmorgun. Hann telur að lyktin sem gangamenn fundu hafi ekki verið ímyndun. „Fjallið er ekki alveg þétt. Það myndast ansi mikið gas við hverja sprengingu og eitthvað sígur inn í fjallið,“ segir Guðmundur.

Nokkuð er síðan hætt var að sprengja Fannardalsmeginn og því munu gangamenn mætast inn í fjallinu í 4540 metra fjarlægð frá Eskifirði en 3026 metra fjarlægð frá Fannardal. Göngin liggja upp í um 175 metra hæð og mætast gangamenn í um 160 metra hæð. Guðmundur segir að lítið haft verði skilið eftir handa ráðherra að sprengja við formlega athöfn 25. september. „Við þurfum að ganga frá þessu; tryggja og styrkja þannig að það sé óhætt að fara með fólk inn. Svo þarf að vinna í útskotum sem eru aftan við stafninn,“ segir Guðmundur.

Kominn er fiðringur í tékkneska gangamenn Metrostav. Þeir hafa grafið síðan í nóvember 2013 og segir Guðmundur að hefð sé fyrir því að þeir geri sér glaðan dag þegar þeir komast í gegn.

Slurrý sprengiefni